Ferill 1156. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2118  —  1156. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum til samræmis við verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands (laun þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna).

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Með frumvarpinu er lagt til að fyrirhuguð hækkun launa samkvæmt lögum nr. 79/2019, sem kveða á um breytingar á launum þjóðkjörinna fulltrúa og embættismanna, komi ekki til framkvæmda hinn 1. júlí 2023 heldur skuli hækkun launa þann dag nema 2,5%.

Umfjöllun.
Sjálfstæði dómara og ákærenda.
    Dómarafélag Íslands lýsti í umsögn eindreginni andstöðu sinni við efni frumvarpsins og undir þá afstöðu tóku aðrir gestir nefndarinnar. Með breytingunni sé í þriðja sinn á þremur árum höfð pólitísk afskipti af launakjörum dómara og annarra hópa sem heyra undir efni frumvarpsins. Mikilvægt sé að standa vörð um sjálfstæði dómstóla og ákæruvaldsins og ekki sé uppi slíkt neyðarástand að það réttlæti inngrip af þessu tagi.
    Fyrsti minni hluti bendir á að árið 2020 var ákveðið að fresta lögbundinni launahækkun dómara sem átti að verða 1. júlí 2020 til 1. janúar 2021. Sú frestun var talin réttlætanleg með tilliti til umfangs þeirra aðgerða sem gripið var til vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og var rökstudd með tilliti til þess að frestunin væri eðlileg og sanngjörn í ljósi aðstæðna í íslensku efnahagslífi. Verði frumvarpið að lögum skapast fordæmi fyrir því að löggjafinn hlutist til um laun dómara og ákærenda, sem eiga að vera sjálfstæðir í störfum sínum, vegna sveiflna í efnahagslífinu og þrýstings sem verður til vegna þess að stjórnvöld hafa ekki brugðist tilhlýðilega við verðbólgu og vaxtahækkunum.

Embætti forseta Íslands.
    Launakjör Forseta Íslands njóta sérstakrar verndar skv. 2. mgr. 9. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, en þar segir: „Ákveða skuli með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“ 1. minni hluti telur því óvarlegt að grípa inn í lögboðna launahækkun forsetans.

Laun þingmanna og ráðherra.
    Grunnlaun þingmanna hafa hækkað um 719 þús. kr. á síðastliðnum sjö árum. Laun forsætisráðherra hafa hækkað um 1.235 þús. kr. á sama tímabili og laun ráðherra og forseta Alþingis um 1.115 þús. kr. Á sama tímabili hafa ráðherrar í ríkisstjórn og aðrir fulltrúar stjórnvalda verið duglegir við að kalla eftir hóflegum launahækkunum á almennum og opinberum vinnumarkaði og ósjaldan hefur heyrst frá fjármála- og efnahagsráðherra að laun á Íslandi séu allt of há og skerði samkeppnisstöðu Íslands. Undanfarið heyrist reglulega frá valdhöfum að verðbólgan sé að einhverju leyti drifin áfram af launahækkunum á vinnumarkaði og þrýstingur settur á verkalýðshreyfinguna að samþykkja skammtímasamninga með þaki á launahækkanir til þess að gefa ríkisstjórninni tíma til þess að bregðast við verðbólgunni sem nú geisar. Lítið hefur bólað á aðgerðum sem bíta á verðbólguna og kaupmáttur dregst saman hvert misserið á fætur öðru.
    Í slíku árferði skal engan undra að sjálfvirk launahækkun ráðherra og þingmanna upp á 6% valdi ágreiningi og ósætti innan samfélagsins. Raunar hefur ekki ríkt sátt um það fyrirkomulag sem tók við með niðurlagningu kjararáðs alveg frá upphafi og því vert að endurskoða hvernig þessum málum er háttað. Píratar studdu ekki núverandi fyrirkomulag og hafa lagt fram tillögu á yfirstandandi þingi um aðra nálgun gagnvart launum þingmanna og ráðherra í máli 802 (þskj. 1231) um sáttmála um laun kjörinna fulltrúa, starfsstétta grunninnviða og lágmarksframfærslu. Markmið tillögunnar er að ná sátt í samfélaginu um laun framangreindra hópa. Sáttmálarnir yrðu unnir af þjóðinni, fyrir kjörna fulltrúa og í samráði við starfsstéttir grunninnviða.
    Í sjálfu sér er æskilegt að embættismenn og dómarar, sem ekki geta samið um eigin kjör og eru í stöðu sem krefst óhæðis og sjálfstæðis frá framkvæmdarvaldinu, fái kjarabætur í gegnum sjálfvirkt kerfi sem tekur mið af launaþróun almennt. Fjármála- og efnahagsráðherra ætti ekki að koma nálægt því að ákvarða laun þessara hópa eins og við á t.d. um forstöðumenn ríkisstofnana. Það kerfi sem nú er við lýði mætti því nýtast áfram til þess að halda utan um launaþróun annarra en þingmanna og ráðherra sem heyra undir lögin.
    Í greinargerð með frumvarpinu er vísað í álit Feneyjanefndarinnar um heimild til afskipta af launum dómara þar sem segir m.a.: „Almenn lækkun launa opinberra starfsmanna þegar harðnar verulega á dalnum megi ná til dómara og verði ekki talin brot á sjálfstæði dómstóla. Laun dómara hljóti að taka mið af aðstæðum og kjörum annarra háttsettra embættismanna. Það megi líta á slíkt sem tákn um samstöðu og félagslegt réttlæti.“ Hér er litið fram hjá því að aðrir háttsettir embættismenn fengu í fyrra þær launahækkanir sem fyrirhuguð launahækkun dómara átti að taka mið af skv. 4. mgr. 44. gr. laga um dómstóla, nr. 50/2016. Þannig er ekki um almenna lækkun launa opinberra starfsmanna að ræða heldur einungis þeirra sem féllu undir lög nr. 79/2019, og fá kjarabætur ári á eftir öðrum sem gegna embættum með sambærilega ábyrgð. Þá er sérstaklega tekið fram í álitum Feneyjanefndarinnar að um neyðarástand eins og efnahagskreppu þyrfti að vera að ræða og hingað til hefur ríkisstjórnin ekki viðurkennt að hér ríki efnahagskreppa af neinum toga heldur þvert á móti hreykt sér af sterkri stöðu ríkissjóðs og batnandi frumjöfnuði. Þá er vert að nefna að ríkisstjórnin tekur ákvörðun um að lækka fyrirhugaða launahækkun sem viðbragð við mikilli gagnrýni frá almenningi og verkalýðshreyfingunni við launahækkunum þingmanna og ráðherra. Ákvörðunin er því pólitísk í eðli sínu og það leiðir ekki sjálfkrafa af henni að hið sama skuli ganga yfir dómara og aðra embættismenn hverra launakjör voru ákveðin með lögum nr. 79/2019.
    Fyrsti minni hluti telur sanngjarnt og eðlilegt að þingmenn og ráðherrar grípi inn í fyrirhugaða launahækkun þeim sjálfum til handa til þess að sýna samstöðu með almenningi á tímum mikillar verðbólgu og lífskjararýrnunar. Þó sýnir þetta þriðja inngrip á þremur árum skýrt fram á það að það fyrirkomulag sem komið var á um laun kjörinna fulltrúa var alls ekki til þess fallið að skapa sátt um laun kjörinna fulltrúa eins og haldið var fram af ríkisstjórninni á sínum tíma. Það er því nauðsynlegt að þingið taki þetta fyrirkomulag til gagngerrar endurskoðunar á næsta þingi og mætti skoða tillögu Pírata um þjóðarsátt um laun kjörinna fulltrúa í því samhengi.
    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      I. kafli falli brott.
     2.      Í stað orðanna „annarra ráðherra og ráðuneytisstjóra“ í III. kafla komi: og annarra ráðherra.
     3.      IV. kafli falli brott.
     4.      V. kafli falli brott.
     5.      VI. kafli falli brott.
     6.      VII. kafli falli brott.


Alþingi, 9. júní 2023.

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.